top of page
HFH (1200 x 8000 px).png

Lög Hnefaleikafélags Hafnarfjarðar

HFH (1200 x 8000 px).png

4. maí 2005

Breyting á lögunum 15. apríl 2014

Breyting á lögunum 14. apríl 2015

 

1. grein
Félagið heitir Hnefaleikafélag Hafnarfjarðar. Heimili þess og varnarþing er í Hafnarfirði.

2. grein.
Tilgangur félagsins er að kenna og iðka ólympíska hnefaleika og gæta hagsmuna félagsmanna. Félagið leggur áherslu á að félagsmenn keppi eftir þeim reglum sem gilda hjá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands hverju sinni.

3. grein
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með að efla samvinnu innan greinarinnar, auka fræðslu og kynningu á íþróttinni.

4. grein
Félagsmenn teljast allir þeir er hafa greitt þriggja mánaða æfingargjöld til Hnefaleikafélags Hafnarfjarðar.

5. grein
Stjórn félagsins er kjörin á aðalfundi. Hún er skipuð 5 aðilum, formanni, ritara, gjaldkera og 2 meðstjórnendum. Stjórnin er kosin á aðalfundi til eins árs í senn og skiptir með sér verkum. Allir félagsmenn eru kjörgengir við kosningu stjórnar.

6. grein
Aðalfundur fer með æðsta vald félagsins. Hann skal halda fyrir 15. apríl ár hvert og til hans boðað með minnst 7 daga fyrirvara. Boðað skal til aðalfundar bréflega, með tölvupósti eða á annan gjaldgengan hátt. Aðalfundur kýs félaginu stjórn og samþykkir reikninga. Dagskrá fundarins skal vera:

1. Starfsskýrsla ársins yfirfarin
2. Ársreikningur síðasta árs lagður fram til skoðunar og samþykktar

3. Umræða um starfsskýrslu og ársreikning
4. Lagabreytingar
5. Kosning stjórnar
6. Önnur mál.

Aðeins félagsmenn mega vera þátttakendur í aðalfundi.

7. grein
Formaður er aðalforsvarsmaður félagsins. Hann kallar saman stjórnarfundi sem skulu haldnir eins oft og þurfa þykir og stjórnar þeim. Stjórn auglýsir félagsfundi og skipar fundarstjóra. Stjórnin skal gæta þess að lögum og reglum félagsins sé hlýtt og hafa vakandi áhuga fyrir öllu því sem verða má félaginu til heilla.

8. grein
Stjórn boðar til félagsfunda svo oft sem þurfa þykir. Stjórninni ber að boða til aukafundar ef minnst 5 félagsmenn óska þess skriflega og skal hann haldinn innan 14 daga. Dagskrá fundarins skal tilkynna í fundarboði. Meirihluti mættra félagsmanna ræður á löglega boðuðum félagsfundum.

9. grein.
Atkvæðagreiðsla um mál skal vera skrifleg ef einn fundarmanna óskar þess.

10. grein
Reikningstímabil félagsins er almanaksárið.

11. grein
Fjármögnun félagsins fellst í æfingargjöldum og þeim styrkjum sem veitast félaginu.

12. grein
Rekstarafgangi/hagnaði félagsins skal varið í samræmi við tilgang Hnefaleikafélags Hafnarfjarðar.

13. grein
Félagsmaður sem gengur úr félaginu á enga körfu á hendur því um endurgreiðslu á greiddum æfingargjöldum né eingarhluta í eigum félagsins.

14. grein
Félaginu verður ekki slitið nema 2/3 félagsmanna samþykki það á aðalfundi í löglegri atkvæðagreiðslu, enda hafi þess verið getið í fundarboði að fyrir lægi tillaga um félagsslit.

15. grein
Ef um eignir er að ræða við slit félagsins skal greiddar upp allar skuldir sem félagið hefur stofnað til og ef um umfram eignir er að ræða eftir greiðslu allra skulda skal stofnaður sjóður um þær eignir sem eftir eru. Höfuðstóll sjóðsins má aldrei skerða en ársvaxta hans skal varið til styrktar Ólympískra hnefaleika. Sjóðurinn skal vera í umsjá Íþróttabandalags Hafnarfjarðar (ÍBH).

16. grein
Lögum þessum verður ekki breytt nema með 2/3 hlutum greiddra atkvæða á aðalfundi. Skulu tillögur um lagabreytingar hafa borist stjórn félagsins eigi síðar en tveimur dögum fyrir aðalfund. Lög þessi öðlast þegar gildi.

 

 

Reglugerð/vinnureglur um þátttökuhandbók og skráningu bardaga í tengslum við hnefaleikakeppnir

 

  1. Öllum hnefaleikamönnum, er hyggjast taka þátt í keppni, er skylt að nota íslensku útgáfuna af alþjóðlegu þátttökuhandbókinni (Competition Record Book) frá og með tímabilinu 2004/2005.

  2. Læknir skal árlega staðfesta í þátttökuhandbókina að viðkomandi hnefaleikamaður hafi staðist læknisskoðun.

  3. Árleg læknisskoðun skal fara fram eftir 1. október til að fá þátttökuhandbókin viðurkennda fyrir það tímabil sem er að ganga í garð. Tímabilið varir frá 1. október til 30. september ár hvert.

  4. Þátttökuhandbókina skal í upphafi hvers tímabils senda til Hnefaleika-nefndarinnar til staðfestingar og eftirlits ásamt 500 kr. greiðslu fyrir keppnisleyfi.

  5. Þátttökuhandbókina skal alltaf hafa meðferðis í allar keppnir.

  6. Gleymi hnefaleikamaður að taka þátttökuhandbókina með sér í keppni dæmist viðureignin honum töpuð.  Dómara er þó heimilt að láta viðureignina fara fram en er þá eingöngu um sýningarbardaga að ræða.

  7. Hnefaleikamaður sem gleymir þátttökuhandbókinni skal sæta sektum að upphæð 5.000 kr. sem skal greiðast til HNÍ.  Viðureignin skal þá færð inn í þátttökuhandbókina af starfsmanni HNÍ að fenginni skýrslu frá framkvæmdaaðila móts og gegn því að sektarupphæðin hafi verið greidd.

  8. Allir íslenskir hnefaleikamenn, dómarar, og þjálfarar sem taka þátt í keppni erlendis er skylt að senda skýrslu inn til HNÍ. Skýrslan skal innihalda:

    1. Hver tekur þátt

    2. staður og stund,

    3. úrslit (ef íslenskir hnefaleikamenn taka þátt) ásamt,

    4. almennu yfirlit um framkvæmdina/keppnina.

Skýrslan skal berast skrifstofu HNÍ 14 dögum eftir að keppni lýkur.  Ef skýrslan berst ekki á réttum tíma er stjórn HNÍ heimilt að beita viðkomandi aðila sektum.

Er varðar leyfisveitingu fyrir hnefaleikakeppni
​Félög, íþróttabandalög eða héraðssambönd skulu senda beiðni um að fá að halda mót a.m.k. með mánaðarfyrirvara til HNÍ til samþykktar.  Þetta nær til allra móta.  HNÍ áskilur sér rétt til þess að banna mót ef sérstakar ástæður liggja fyrir.

Stjórn HNÍ skal í upphafi hvers tímabils óska eftir umsóknum frá hnefaleikafélögum um keppnishald.  Að þeim fengnum skal stjórn HNÍ gefa út keppnisdagatal fyrir komandi tímabil þar sem fram kemur hvaða félögum er heimilt að halda mót ásamt þeim mótum sem HNÍ stendur fyrir, sbr. Íslandsmót eða landskeppnir.

Eftir að keppnisdagatal hefur verið gefið út er félögum engu að síður heimilt að sækja um, til stjórnar HNÍ, að fá að halda mót og gildir þá sami tímafrestur og í gr. 1

Allar breytingar á mótsdögum skal tilkynna til stjórnar HNÍ með a.m.k viku fyrirvara.  Ef það er ekki gert er stjórn HNÍ heimilt að beita  sektarákvæðum.

Viku fyrir mót skal mótshaldari senda inn til stjórnar HNÍ upplýsingar um mótsstað, tímasetningu og nafnalista yfir keppendur og þyngdarflokka.

Til að mót teljist löglegt og viðureignir fáist skráðar verða a.m.k. þrjár viðureignir að fara fram og allir keppendur að hafa löggilda þátttökuhandbók.

Félögum er óheimilt að setja á keppnir, hér á landi, við erlend félög nema með samþykki og vitun stjórnar HNÍ.

Er varðar leyfisveitingu fyrir sýningarbardögum
  1. Sækja þarf um leyfi til stjórnar HNÍ fyrir sýningarleikjum.

  2. Umsókn um leyfi til sýningarleikja skal berast stjórn HNÍ með viku fyrirvara.

  3. Aðeins héraðssambönd, íþróttabandalög og löggild hnefaleikafélög geta sótt um leyfi til sýningarleikja.

  4. Keppnisstjóri frá hnefaleikafélagi skráðu á Íslandi skal vera viðstaddur hnefaleikasýningar.

  5. Venjulegt leyfi HNÍ þarf fyrir hnefaleikasýningar.

  6. Reglum keppnishnefaleika skal beita eftir því sem við á m.a. á dómari með réttindi að stjórna í hringnum.

 

Reglur Alþjóðahnefaleikasambandsins AIBA (Association Internationale de Boxe Amateur)

Sjá reglur hér.
Heimasíða AIBA.

bottom of page